Hugmyndir

LÝÐRÆÐI OG SJÁLFBÆRNI – raunhæfir möguleikar

Sjálfsstjórn vinnandi fólks
Fyrirtæki lúti lýðræðislegri stjórn þeirra sem hjá þeim starfa: Hver starfsmaður hafi eitt atkvæði. Starfsmenn reka fyrirtækið í sameiningu, ákvarða stefnu þess og skipulag. Rannsóknir sýna að lýðræðisleg fyrirtæki eru a.m.k. jafn hagkvæm og kapitalísk fyrirtæki en koma betur út félagslega.

Sjálfbærni
Framleiðsla og neysla verður að vera sjálfbær, að öðrum kosti er einungis tímaspursmál hvenær auðlindir jarðar ganga til þurrðar og mikilvæg vistkerfi hrynja. Eilífur vöxtur í heimi takmarkaðra auðlinda er ómögulegur. Krafan um sífelldan hagvöxt verður að víkja. Umhverfisvottun vöru verði skilyrði fyrir framleiðslu.

Valdið til fólksins
Dreifa þarf valdinu á stjórnmálasviðinu, t.d. með því að innleiða þar persónukjör og slembival. Vald hefur þjappast saman í fámenna valdakjarna innan stjórnmálaflokka. Stórar ákvarðanir, eins og fjárhagsáætlunargerð sveitarfélaga, má taka á fulltrúaþingum almennings eins og gefist hafa vel erlendis. Jafnrétti er grundvöllur lýðræðis og því þarf að tryggja að valdið dreifist jafnt til einstaklinga óháð kyni, kynhneigð, kynvitund, kynþætti, þjóðerni, líkamlegri getu o.s.frv.

Félagslegt bankakerfi
Öll hlutabréfaviðskipti og fjármálagerningar sem grundvallast á því að ávaxta fjármagn heyri sögunni til. Fyrirtæki greiði leiguskatt sem renni til fjármögnunar fyrirtækja og nýsköpunar. Leiguskatti er dreift til byggðarlaga miðað við höfðatölu. Þar taka lýðræðislegar og faglegar bankastofnanir við fjármunum og veita styrki til atvinnureksturs. Umsóknir um styrki sem skapa atvinnu hafa forgang.

Markaðurinn áfram
Markaðir fyrir vörur og þjónustu verða áfram líkt og hingað til. Markaðurinn þjónar þeim tilgangi að miðla upplýsingum um framboð og eftirspurn svo fyrirtækin geti tekið skynsamlegar ákvarðanir um framleiðslu. Samkeppnin byggi ekki lengur á því að komast í einokunarstöðu heldur á skynsamlegri framleiðslu.

Velferðarkerfi
Öflugt velferðarkerfi með jöfnum aðgangi að menntun, heilbrigðisþjónustu og lífeyri. Atvinnuleysi ekki lengur talið eðlilegt. Stefnt er að fullri atvinnu. Bankakerfið hefur það grundvallarmarkmið að skapa atvinnu, ríkisvaldið ræður fólk til að halda uppi öflugu velferðarkerfi og styrkja innviði samfélagsins.

Styttri vinnutími – sanngjörn laun
Í dag er tekjumunur innan fyrirtækja jafnvel 500 á móti 1. Í lýðræðislegu hagkerfi má gera ráð fyrir tekjumun innan fyrirtækja upp á u.þ.b. 9 á móti 1. Starfsmönnum gefst loks færi á því að velja á milli hærri launa eða meiri frítíma því ekki er lengur þrýstingur á að vinnandi fólk starfi sem lengst fyrir sem minnst.

4 svar við Hugmyndir

  1. Gylfi Garðarsson sagði:

    Hugmynd um virkjun auðra atkvæða til slembivals

    Ef ekki fæst fylgi við að ítrustu útfærslu af slembivalskerfi mætti prófa að ná fylgi við prófun þess varðandi AUÐ ATKVÆÐI. Í staðinn fyrir að verða ógilt atkvæði færðist hlutverk auðra kjörseðla í atkvæði til vals á slembivalsfulltrúa. Slembivaldir fulltrúar fengju m.ö.o. fylgi í samræmi við fjölda auðra atkvæðaseðla. Ef megn óánægja er með stjórnmálaflokka þá fjölgar auðum seðlum og um leið slembivöldum fulltrúum en öfugt ef kjósendur eru sáttir við flokkana.

    Dæmi: Skv. ummælum Heiðrúnar Sveinsdóttur undir nýlegu erindi til Stjórnlagaráðs (http://www.stjornlagarad.is/erindi/nanar/item33860/?fb_comment_id=fbc_10150638102155554_22253042_10150641861065554#f3064e3c7c3b836) þá samsvaraði fjöldi auðra atkvæða til eins fulltrúa í bæjarstjórn Hafnarfjarðar í síðustu kosningum og með því fyrirkomulagi sem hér er lagt til hefði það sæti gengið til fyrsta manns skv. slembivali. Þetta gæti verið nægilega væg breyting til að öðlast viðurkenningu en samt nógu burðug til að hafa áhrif í kosningum.

    Er þetta raunhæf hugmynd?

    • Sæll Gylfi. Þetta er mjög áhugaverð hugmynd og við tökum hana til umræðu á næsta fundi málefnahóps um lýðræðisvæðingu stjórnmálanna. Nú stefnir í sumarfrí svo ég geri ráð fyrir að næsti fundur verði ekki fyrr en í ágúst.

  2. Haukur sagði:

    „Rannsóknir sýna að lýðræðisleg fyrirtæki eru a.m.k. jafn hagkvæm og kapitalísk fyrirtæki“

    Eru þið með heimildir fyrir þessari fullyrðingu?

    • Sæll Haukur. Fyrst vil ég benda á nýju heimasíðuna okkar http://www.alda.is – endilega kíkja þangað inn.
      En hér kemur svarið:
      Gerðar hafa verið margar rannsóknir í gegnum tíðina á skilvirkni fyrirtækja sem eru rekin af eða með aðkomu starfsmanna. David Schweickart fer yfir nokkrar rannsóknir í bók sinni After Capitalism (2002: 60-61) frá sjöunda og fram á tíunda áratug síðustu aldar. Í stuttu máli eru til margar rannsóknir sem benda til þess að fyrirtæki sem starfsmenn koma að rekstrinum og sérstaklega þó þau sem eru að fullu rekin af starfsmönnum séu a.m.k. jafn skilvirk og ólýðræðisleg fyrirtæki. Í HEW rannsókninni frá 1973 kom fram engin tilfelli hafi fundist þar sem aukning í áhrifum starfsmanna á rekstur hafi haft neikvæð áhrif á skilvirkni í framleiðslu til lengri tíma. Sumar rannsóknir benda til þess að framleiðni sé jafnvel meiri í lýðræðislegum fyrirtækjum, sérstaklega þar sem ágóðanum er skipt milli starfsmanna, starfssamningar eru til langs tíma, launabil er þröngt og víðtæk réttindi starfsmanna eru tryggð. Þær heimildir sem Schweickart vísar til eru:

      Work in America (Cambridge, Mass.: MIT Press, 1973: 112)
      Participatory and Self-Managed Firms: Evaluating Economic Performance (Lexington, Mass.: Lexington Books, 1982: 11).
      Paying for Productivity: A Look at the Evidence (Washington, D.C.: Brookings, 1990).
      The Performance of Labour-Managed Firms (New York, St. Martins Press, 1982: 80).

      Þá hafa verið gerðar viðamiklar rannsóknir á svokölluðum employee stock ownership plans (ESOP) sem renna stoðum undir það eignarhlutur starfsmanna í fyrirtækjum eykur hagkvæmni og langlífi fyrirtækis í vissum tilfellum.

      Sjá: http://www.nceo.org (http://www.nceo.org/articles/research-employee-ownership-corporate-performance).

      Bent hefur verið á að lýðræðisleg stjórnun kunni að vera íþyngjandi við stjórnun mjög stórra fyrirtækja (Sjá: Hansmann, Henry. The Ownership of enterprise (Cambridge, MA: Harvard University Press, 1996).) En til eru dæmi um mörg stór lýðræðisleg fyrirtæki sem eru mjög vel rekin og í samkeppni við kapítalísk fyrirtæki á heimsmarkaði. Mondragón samsteypan á Spáni er líklega þekktasta dæmið en þar starfa um 100.000 mans, það er því als ekki algilt að lýðræðisleg ferli viðstjórn fyrirtækis íþyngi því svo að það verði ósamkepnishæft.

      Alþjóðlega vinnumálastofnunin (ILO) hefur einnig gefið út skýrslur um samvinnufélög (þar á meðal starfsmannasamvinnufélög), þar á meðal er áhugaverð skýrsla frá 2009 þar sem fram kemur að samvinnufélög standi betur af sér kreppur og sveiflur í hagkerfinu en hefðbundin kapítalísk fyrirtæki.

      Sjá: (http://www.ilo.org/empent/Publications/WCMS_108416/lang–en/index.htm)

      Sjá einnig góða umfjöllun um lýðræðislega möguleika samvinnufyrirtækja:

      Wright, Erik Olin. Envisioning real utopias (London, New York, Verson, 2010).
      Restakis, John. Humanizing the economy, co-operatives in the age of capital (Canada, New society publishers, 2010).
      Þá er margvíslegar upplýsingar um samvinnufyrirtæki á vef alþjóðasamtaka þeirra: http://www.ica.coop

      Þá er rétt að geta þess að lýðræði er réttur og hefur kosti í sjálfu sér fyrir einstaklinga og samfélög, s.s. að styrkja félagsleg tengsl, efla samfélagið og valdeflandi áhrif fyrir einstaklinga. Þessir þættir vega margir hverjir þyngra en hlutfallsleg skilvirkni og framleiðni.

      Kveðja,
      Alda

Færðu inn athugasemd