Lög

I. kafli. Markmið og tilgangur

1. gr.
Félagið skal heita Lýðræðisfélagið Alda. Er varnarþing þess í Reykjavík

2. gr.
Félagið skal berjast fyrir lýðræði og sjálfbærni á innlendum og erlendum vettvangi, innan og utan fyrirtækja og hvar annars staðar sem þörf er talin á slíkum umbótum á hverjum tíma.

II. kafli. Félagsmenn

3. gr.
Öllum skal heimil full félagsaðild sem þess óska enda fylgi þeir félaginu að málum. Stjórn félagsins skal meta það sérstaklega í hverju tilviki hvort rétt sé að samþykkja aðild barna yngri en 15 ára að félaginu.

III. kafli. Aðalfundur

4. gr.
Reglulegan aðalfund skal halda árlega á tímabilinu 15. september til og með 15. október. Boðað skal til fundarins með 10 daga fyrirvara á vefsvæði félagsins og með tölvupósti til félagsmanna.

5. gr.
Dagskrá aðalfundar félagsins skal vera á þessa leið:
1.Skýrsla stjórnar
2.Framlagning reikninga
3.Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga
4.Lagabreytingar
5.Umræður og afgreiðsla ályktun félagsins og samþykkt áherslna í starfsemi félagsins á milli aðalfunda
6.Kosning stjórnar
7.Önnur mál

Samþykki aðalfundar þarf til breytingar dagskrár. Aðalfundur skal taka fyrir allar lagabreytingartillögur og málefni sem félagsmenn bera upp svo fljótt fyrir aðalfundinn að ætla má að tími gefist til þess að kynna tillögurnar. Tillögur sem bornar eru fram á aðalfundi skal taka til umfjöllunar ef aðalfundur samþykkir eða ef sjö félagsmenn lýsa yfir stuðningi við tillöguna. Ákvæði þetta takmarkar ekki heimild aðalfundar til þess að breyta fram komnum tillögum.

Allar kosningar á aðalfundi skulu vera bundnar og skriflegar sé þess óskað. Jafnan skal kosið með handauppréttingum og ræður einfaldur meirihluti úrslitum. Framboð til stjórnar þurfa að berast stjórn félagsins, skriflega, áður en aðalfundur er settur.

IV. kafli. Stjórn

6. gr.
Í stjórn félagsins skulu sitja 13 menn. Skal stjórnarkjör fara fram á öllum aðalfundum félagsins. Kosning stjórnar skal vera skriflega. Stjórnarmenn eru kjörnir úr hópi félagsmanna og stjórn skiptir með sér verkum. Hætti stjórnarmaður á milli reglulegra aðalfunda er stjórn félagsins heimilt að velja nýjan stjórnarmann úr röðum félagsmanna. Komi fram ósk um það frá að minnsta kosti fimm félagsmönnum skal stjórn félagsins boða til félagafundar og kjósa nýjan stjórnarmann í stað þess sem hætti.

7. gr.
Stjórnarfundi skal halda svo oft sem þurfa þykir. Er stjórn félagsins bundin af samþykktum aðalfundar og almennra félagsfunda eftir atvikum. Stjórnarfundi skal boða með tveggja sólarhringa fyrirvara og telst stjórnarfundur lögmætur ef meirihluti stjórnarmanna situr fund. Óski tveir stjórnarmenn eða fleiri eftir því skal boða til stjórnarfundar. Hið sama á við ef fimm eða fleiri félagsmenn óska eftir stjórnarfundi. Geta félagsmenn jafnframt krafist þess að tiltekið málefni verði tekið fyrir á stjórnarfundi. Allir stjórnarfundir félagsins skulu opnir félagsmönnum og skulu allir félagsmenn njóta málfrelsis og tillöguréttar á stjórnarfundum. Stjórn félagsins skal jafnframt tryggja að haldin sé fundargerð fyrir stjórnarfundi sem greinir frá öllu því sem þar fer fram. Skal félagsmönnum heimilt að kynna sér efni fundargerða stjórnar.

8. gr.
Stjórn félagsins skal kappkosta að rækja hvers konar starfsemi sem líkleg er til þess að efla félagið og styrkja málsstað þess.

V. kafli. Almennir félagafundir

9. gr.
Nú óska átta félagsmenn þess að haldinn sé almennur félagafundur og skal stjórn félagsins þá boða til slíks fundar innan tveggja vikna. Í beiðni félagsmanna skal koma fram hvaða málefni taka skal fyrir og óskir þeirra um mögulega framsögumenn, staðsetningu eða önnur atriði sem máli skipta. Er stjórn félagsins bundin af fyrirmælum félagsmanna nema á þeim séu augljósir annmarkar eða ómögulegt sé að verða við þeim. Getur stjórn ákveðið eða aðrir félagsmenn en þeir sem eftir fundinum óskuðu farið fram á að fleiri málefni verði tekin á dagskrá almenns félagafundar. Skal það gert með hæfilegum fyrirvara.

10. gr.
Félagafundir skulu hefjast á því að valinn sé fundarstjóri og eftir atvikum fundarritari. Skal reyna eftir megni að fela ólíkum félagsmönnum fundarstjórn.

Auglýsingar